Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, segir alþjóðlega lánveitendur landsins sýna því kúgunartilburði með nýjasta tilboði sínu. BBC News greinir frá þessu.

Lánardrottnar Grikklands hafa gert Grikklandi tilboð þess efnis að 15,5 milljarðar evra verði veittir í formi neyðarláns til landsins fallist það á að gera ákveðnar umbætur í efnahagskerfi sínu.

Af þessum 15,5 milljörðum yrðu 1,8 milljarðar strax greiddir til Grikkja, og gætu þeir þá staðið við komandi afborgun af láni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem er á gjalddaga á þriðjudag í næstu viku.

Tsipras segir tilboðið fela í sér kúgunartilburði gagnvart Grikklandi. „Meginreglur Evrópu eru ekki byggðar á kúgunum og afarkostum. Á umbrotatímum sem þessum hefur enginn rétt til þess að stofna þessum meginreglum í hættu,“ sagði Tsipras meðal annars.

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hefur hins vegar hvatt Grikki til þess að gangast við tilboðinu, sem hún segir ótrúlega örlátt.