Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, mun segja af sér embætti síðar í dag, en fréttamiðillinn Reuters kveðst hafa heimildir fyrir þessu.

Tsipras hefur fundað með ráðgjöfum sínum í dag og hefur verið búist við tilkynningu hans um afsögn fljótlega. Líklega mun bráðabirgðastjórn verða mynduð í landinu þar til nýjar kosningar fara fram, en gert er ráð fyrir að þær verði haldnar í september næstkomandi.

Tsipras hefur mætt nokkurri gagnrýni innan eigin flokks, Syriza-flokksins, vegna neyðarlánapakkans sem hann samdi um fyrir hönd Grikklands gagnvart alþjóðlegum lánardrottnum.

Búist er við því að Tsipras, sem gengt hefur embætti forsætisráðherra í landinu frá því í janúar, tilkynni um afsögn sína í sjónvarpsútsendingu í kvöld.