Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, hélt aðra ræðu í ríkissjónvarpinu þar í landi og hvatti samborgara sína til að kjósa „nei“ í þjóðaratkvæðagreiðslu um neyðarlán á sunnudag.

Í byrjun ræðu sinnar sagði Tsipras að Grikkir ættu að hafna „afarkostum, kúgunum og hræðsluáróðri“ með því að segja nei við skilmálum lánadrottna.

Tsipras hefur verið afar erfiður í samningaviðræðum en á dögunum náði hann samkomulagi við þrjá stærstu lánadrottna um aðgerðir sem Grikkir þyrftu að grípa inn í til að fá neyðarlán. Hann kom síðan öllum á óvart og boðaði þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort samþykkja ætti samkomulagið og hvatti grísku þjóðina til að hafna því.

Hann segir að þessi þjóðaratkvæðagreiðsla tengist ekki aðild að Evrusvæðinu og að Grikkir komist í betri samningsstöðu með því að segja nei.

Í gær viðurkenndi Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn í fyrsta skiptið að mögulega ætti að gefa eftir í viðræðunum við Grikki. Voru þau ummæli svo sannarlega vatn á myllu Tsipras.