Sveinn Hjörtur Hjartarson, hagfræðingur Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ), segir í úttekt um þróun heimsmarkaðsverðs á olíu í Viðskiptablaðinu í dag að hver króna í olíuverði til eða frá þýði um 250 til 300 milljónir króna fyrir útgerðina.

Sveinn segir að útgerðin á Íslandi hafi á undanförnum árum verið að nota um 300 milljónir lítra af olíu á ári.

Samkvæmt Hagtíðindum eyddi útgerðin árið 2006 rúmum 9,8 milljörðum króna í olíu. Hlutfall olíukostnaðar af 81,5 milljarða heildartekjum útgerðarinnar reyndist að meðaltali vera um 12% á árinu 2006. Þetta hlutfall breyttist verulega á árinu 2007 og 2008 og var að meðaltali komið í um og yfir 20% ef tekjum.

Þegar olíuverðið var hæst í júlí 2008 var það um 147 krónur á lítrann. Ef það verð hefði haldist hefði kostnaðurinn fyrir útgerðina farið í 40 milljarða króna miðað við heilt ár. Þá hefði hlutfall olíukostnaðar orðið að meðaltali hátt í 50% af tekjum á ári. Sveinn telur að engin innistæða hafi þó verið fyrir svo háu olíuverði á markaði.

_______________________________________

Nánar er fjallað um málið í úttekt um olíuverð í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .