"Íslendingar geti ekki lengur skorast undan að taka þátt í því eftirlitshlutverki sem lýtur að björgunarmálum og vörnum Íslands sem og eftirliti með hafsvæðinu og lofthelginni umhverfis landið," segir Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslu Íslands.

Eftirlitshlutverkið sé að vaxa hröðum skrefum hvort sem mönnum líki það betur eða verr. Það sé fyrst og fremst vegna aukinna krafna frá alþjóðasamfélaginu. Landhelgisgæslunni hefur verið falin stóraukin ábyrgð í þessu máli og það kallar á veruleg fjárútlát sem hæglega geta hlaupið á tugum milljarða. Þar er um að ræða upphæðir sem Íslendingar eiga ekki að venjast að settar séu í þennan málaflokk.

Ekki eru ýkja mörg ár síðan harðvítugar deilur voru um kaup á einni björgunarþyrlu fyrir Landhelgisgæsluna. Var þar deilt um upphæðir og ekki síður um hvort kaupa ætti bandarískar þyrlur, breskar þyrlur eða "kommúnistavélar" frá Frakklandi. Fyrir þrem árum var fátt annað en mikill samdráttur í spilunum hjá Landhelgisgæslu Íslands. Þá var gert er ráð fyrir að Gæslan héldi aðeins úti tveim varðskipum auk flugvélakosts sem samanstóð þá af tveim þyrlum og einni gamalli Fokker Friendship F-27 vél.

Þegar Bandaríkjamenn kölluðu allan sinn herviðbúnað frá Íslandi á síðasta ári breyttist heimsmynd Íslendinga og urðu þá góð ráð sannarlega dýr. Hérlendis höfðu menn vanist því að Bandaríkjamenn borguðu að stórum hluta brúsann af eftirliti með íslensku lögsögunni sem og að tryggja björgunarviðbúnað með því að hafa hér staðsetta þyrlubjörgunarsveit með fimm þyrlum. Allur þessi viðbúnaður hvarf úr landi og við því varð að bregðast með hraði og það hefur nú verið gert, - en aðeins til bráðabirgða. Að mati forstjóra Gæslunnar liggur fyrir að taka þarf á næstu árum mjög stórar pólitískar ákvarðanir um tækjakaup.

Hlutverk Gæslunnar er sannarlega viðamikið í að sinnan björgun og eftirliti, en efnahagslögsaga Íslands er um 700 þúsund ferkílómetrar. Björgunarsvæði Gæslunnar er hins vegar tæpar tvær milljónir ferkílómetra. Því svæði verður greinilega ekki sinnt á árabátum eða svifdrekum. Að vísu má halda því fram að allar fjárhæðir varðandi tækjakaup Gæslunnar séu afstæðar. Þar er m.a. bent á að ein stór björgunarþyrla er talin kosta um 2,2 milljarða króna, eða svipaða upphæð og ein einkaþota af fínustu gerð í ört stækkandi flugflota íslenskra auðmanna.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag