Tugir banka tóku þátt í 9,6 milljarða evra (848 milljarðar íslenskra króna) fjármögnun á kaupum fimm fjárfestingasjóða á danska símafyrirtækinu TDC, og eru Landbanki Íslands og Glitnir á meðal þeirra.

Heimildarmenn Viðskiptablaðsins benda á að Landsbankinn og Glitnir hafi skráð sig fyrir litlum hlut og eru í raun og veru að kaupa lánið af þeim fimm bönkum sem leiða fjármögnunina. Þeir eru Barclays, Credit Suisse First Boston, Deutsche Bank, JP Morgan og Royal Bank of Scotland.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins var mikil umframeftrspurn eftir fjármögnunni og alls skráði hópur alþjóðlegra banka sig fyrir um 15 milljörðum evra. Umframeftirspurnin veldur því að upphæðin á hvern banka mun lækka töluvert.

Heimildarmenn Viðskiptablaðsins segja að Landabankinn og Glitnir muni líklega enda með um 70 milljónir evra á bókunum, sem samsvarar tæplega 6,2 milljörðum króna.

Sérfræðingar á sambankalánamarkaði segja að það muni ekki reynast erfitt fyrir bankana að selja lánin á eftirmarkaði þar sem eftirspurn er þegar mikil.

?Ef bankarnir vilja losa sig við lánið verður það ekki mikið mál," sagði einn sérfræðingur í samtali við Viðskiptablaðið.

Bankarnir fimm, sem leiða lánið, munu ákveða upphæðina sem hver banki fær í dag, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Lánið er í sjö hlutum. Vextirnir eru á bilinu 225-325 punktar yfir EURIBOR, sem eru millibankavextir í Evrópu, og eru til 7-9 ára. Einnig eru brúarlán sem bera hærri vexti, eða á bilinu 675-1275 punktar yfir EURIBOR.

Fjárfestingasjóðirnir Apax, Permira, Blackstone, Providence Equity og Kholberg Kravis Roberts samþykktu að kaupa TDC fyrir 11,7 milljarða evra í fyrra og hafa tryggt sér rúmlega 88% hlut í félaginu.

Yfirtakan var stærsta skuldsetta yfirtakan í Evrópu í fyrra og sú stærsta í danskri viðskiptasögu.