Þyngri fangelsisrefsingar og fjölgun dómþola eftir hrun samhliða niðurskurði fjárveitinga til fangelsa hefur leitt til þess að tugir refsinga hafa fyrnst á síðustu árum. Morgunblaðið greinir frá.

Jafnmargar refsingar hafa fyrnst það sem af er þessu ári og á öllu síðasta ári. Tíu dómar til viðbótar gætu fyrnst áður en árið er úti. Til samanburðar má geta þess að á tímabilinu 2000-2008 fyrndust aðeins þrjár refsingar. Um 450 einstaklingar bíða nú afplánunar.

Páll Winkel, fangelsismálastjóri, segir í samtali við Morgunblaðið að nýting fangelsa hafi verið um 100% fyrir hrun. Það segi sig sjálft að þegar refsingar þyngjast um nær 100% á sama tíma og gerð er krafa um 25% niðurskurð í rekstri láti eitthvað undan.