Tugir manna fara frá Íslandi til Brasilíu í sumar í þeim tilgangi að horfa á leiki á HM í knattspyrnu. Mótið hefst fimmtudaginn 12. júní og lýkur sunnudaginn 13. júlí. „Það eru nokkrir búnir að fá miða frá okkur,“ segir Þórir Hákonarson, framkvæmdastjóri Knattspyrnusambands Íslands, í samtali við Viðskiptablaðið. Hann segir að KSÍ hafi getað lagt inn pöntun fyrir miðum á leikina og útvegað fólki sem hafði áhuga á að fara. „Þetta gætu verið svona um fimmtíu manns sem eru að fá miða í gegnum okkur,“ segir Þórir.

Þórir segir hugsanlegt að einhverjir muni fara til Brasilíu án þess að hafa fengið miða í gegnum KSÍ. Það hafi verið möguleiki að fá miða í gegnum vefsíðu Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, en miðum hafi verið dreift þar með einhvers konar happadrætti. Viðskiptablaðið hefur þó ekki upplýsingar um að ferðaskrifstofur hafi skipulagt ferðir á mótið. Þórir segist sjálfur ekki fara á heimsmeistaramótið og ekki heldur Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ. Sá síðarnefndi mun reyndar fara til Brasilíu í aðdraganda mótsins til að taka þátt í þingi FIFA en ekki til að fylgjast með mótinu.

Eins og kunnugt er komst Ísland í umspil um sæti í lokakeppninni í Brasilíu í fyrsta sinn eftir að hafa gert jafntefli við Noreg í lokaumferð riðlakeppninnar.

Þú getur lesið meira um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út 8. maí 2014. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .