Um 5% netpókerspilara koma út í hagnaði. Tugir Íslendinga hafa þá atvinnu eina að spila póker á netinu, á allt að 36 borðum í einu.

Þetta kemur fram í frétt Morgunblaðsins í dag um pókerinn á netinu. Rætt er við Davíð Þór Rúnarsson, eiganda veitingastaðarins Gullaldarinnar, Pókerklúbbsins 53 og Casa. Hann segir að þeir sem ætli sér að greiða á netspilum þurfi að sitja við í 10 til 12 tíma í senn. Netspilunin krefjist mikillar athygli.

Í frétt Morgunblaðsins er sagt frá manni hér á landi sem unnið hefur 70 þúsund dollara á árinu 2012. Það jafngildir nærri 8,9 milljónum króna. Þá er rætt við 24 ára netpókerspilara sem hefur grætt um 12 milljónir á þeim tveimur árum sem hann hefur haft spilunina að atvinnu. ,,Ef ég skipti þessu í mánaðartímabil þá græði ég í 90% tilfella. Ef ég spila nægilega mikið og er duglegur get ég grætt svona milljón á mánuði. Ég er hins vegar oft mjög latur og læt mér nægja 100-300 þúsund. Stundum græði ég vel fyrstu vikuna og nenni ekki að spila meira þann mánuðinn,“ er haft eftir honum.