Æ fleiri útskrifast úr háskólum landsins með menntun í lögfræði og er nú svo komið að atvinnuleysi mælist í þeirra röðum.

Í Morgunblaðinu í dag segir að tæplega 60 lögfræðingar hafi verið á atvinnuleysisskrá í hverjum mánuði.

Ingimar Ingason, framkvæmdastjóri Lögmannafélags Íslands, segir í samtali við Morgunblaðið erfiðara nú en áður fyrir nýútskrifaða lögfræðinga að komast í vinnu. Ein afleiðingin sé sú að sífellt fleiri nýútskrifaðir lögfræðingar afli sér málflutningsréttinda án þess að vera komnir með starf við fagið og greiði námskeiðsgjaldið, 200-250.000 krónur, úr eigin vasa.

Hann bætir við að líklega geti svo farið að einhverjir þeirra sem ekki fái starf sem lögfræðingar gætu þurft að leita í önnur störf. Það geti svo aftur leitt til þess að þeir geti ekki haldið við þekkingu sinni á lögfræði eða öðlast nauðsynlega reynslu.

„Ég hef mestar áhyggjur af því fólki sem er á síðustu tveimur árum laganáms. Það getur staðið frammi fyrir því að atvinnuhorfur verði mjög erfiðar, það er mín tilfinning,“ segir hann.