Hagnaður Landsvirkjunar fyrir óinnleysta fjármagnsliði minnkaði á síðasta ári og nam 131 milljón dollara borið saman við 147 milljónir árið á undan. Hagnaðurinn á þennan mælikvarða hefur þó aukist um 45% frá árinu 2010.

Landsvirkjun hélt í morgun afkomufund þar sem Hörður Arnarson forstjóri og Rafnar Lárusson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, fjölluðu um rekstur fyrirtækisins og horfurnar framundan. Handbært fé frá rekstri Landsvirkjunar nam 249 milljónum dollara í fyrra, jafnvirði 32 milljarða króna, en skuldir félagsins lækkuðu um 224 milljónir dollara.

Félagið hefur ekki verið skuldléttara frá því áður en Kárahnjúkavirkjun var gangsett. Eiginfjárhlutfall Landsvirkjunar hefur aldrei verið hærra.

Arðgreiðslur hækki á 2-3 árum

Landsvirkjun er eitt þeirra fyrirtækja á Íslandi sem framleiðir hvað mest handbært fé, en um 60% af tekjum Landsvirkjunar skila sér í handbæru fé frá rekstri. Vegna áherslu fyrirtækisins á það að greiða niður skuldir hafa arðgreiðslur þess ekki verið miklar í samanburði við afkomuna. Fyrirtækið greiddi ríkissjóði 11 milljónir dollara í arð í fyrra, jafnvirði um 1,5 milljarða króna.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir í samtali við Viðskiptablaðið að hægt verði að byrja að auka arðgreiðslur eftir 2-3 ár, og að stefnt sé að því að hækka þær í 10-20 milljarða króna á ári. Hann segir það ráðast af ýmsum aðstæðum hversu hratt er hægt að auka arðgreiðslurnar.

„Það ræðst af ytri aðstæðum. Það ræðst líka af framkvæmdastiginu hjá okkur. Það ræðst af aðstæðum á fjármálamörkuðum líka. Það er erfitt að meta það, en ekki á löngum tíma. Kannski á öðrum tveimur til þremur árum, eitthvað svoleiðis,“ segir Hörður. Af þessu má ráða að eftir 4-6 ár geti Landsvirkjun farið að borga 10-20 milljarða í arð á ári.

Í kynningu Harðar kom fram að fyrirtækið stefni á að vera hæfilega skuldlétt og að það hafi greiðan aðgang að hagkvæmum langtímalánum án ríkisábyrgðar. Arðgreiðslugetan sé takmörkuð meðan unnið er að lækkun skulda.

„Það er engin ástæða fyrir Landsvirkjun að vera skuldlaus, það er áhugavert að vera með eðlilega blöndu af lánsfé og eigin fé. Við erum núna með 45% eigið fé, sem er mjög hátt. Þetta þýðir að við munum fara yfir 50% eiginfjárhlutfall áður en við förum í umtalsverðar arðgreiðslur,“ segir Hörður.

Sveiflan hafði ekki mikil áhrif

Landsvirkjun er tveimur lánshæfismatsflokkum neðar en norrænu raforkufyrirtækin Dong, Vattenfall og Fortum og þremur flokkum neðar en hið norska Statskraft. Hörður segir ýmsa þætti valda þessu.

„Það er kannski fyrst og fremst að við erum skuldsettari. Við erum með meiri skuldir. Síðan hefur verið gerð athugasemd við miklar álverðstengingar, mikla áhættu í áliðnaðnum og þær sveiflur sem gætu myndast þar.

Svo aftur á móti förum við í gegnum þessa sveiflu núna án þess að það hafi mikil áhrif. Það er það sem veldur því að lánshæfismatið okkar er að fara upp núna,“ segir Hörður og vísar þar í að Standard & Poor's hafi nýlega hækkað lánshæfismat Landsvirkjunar í fjárfestingarflokk.