Samkvæmt áætlunum Sambands sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) gæti undirbúningur á nýju samgöngukerfi - borgarlínu - hafist á næsta ári. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu .

Í bréfi sveitarfélaga höfuðborgarsvæðisins til fjárlaganefndar Alþingis kemur fram fram að kerfið geti kostað allt frá 44 til 72 milljarða. Til samanburðar er gert ráð fyrir því að nýr meðferðarkjarni Landspítalans komi til með að kosta 30 milljarða.

Einnig kemur fram í sama bréfi að óskað sé eftir 25 til 30 milljarða framlagi ríkis og sveitarfélaga til ársins 2022. Það framlag yrði til þess að fjármagna fyrsta áfanga sem byggður yrði á árunum 2019 til 2022 fyrir 30 til 40 milljarða. Rætt er að fjármagna verkefnið með því að innheimta innviðagjald. Hrafnkell Proppé, svæðisskipulagsstjóra höfuðborgarssvæðisins, segir kerfið verða byggt í áföngum og að lega borgarlínunnar hafi ekki verið ákveðin.

Í viðtali við Viðskiptablaðið í febrúar sagði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri að ekki hafi verið ákveðið hvort að hraðvagnakerfi eða léttlestakerfi verði fyrir valinu. Hann tók jafnframt fram að sveitarfélögin í höfuðborgarsvæðinu væru með danska ráðgjafa í málinu.

„Þau munu skila okkur tillögum fyrir vorið um þetta. Farþegagrunnurinn ræður miklu um hvort að það sé raunhæft að fara í léttlest eða hvort við látum hraðvagnakerfið duga. Þetta er svolítið eins og eggið og hænan,“ sagði Dagur þá.