Enginn veit með vissu hvað flutningur Fiskistofu frá Hafnarfirði til Akureyrar kemur til með að kosta. Ekki liggur fyrir í hvaða húsnæði stofnunin verður færð og hvort eða hvernig flutningurinn muni hafa í för með sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð til langs tíma. Markmiðið með flutningnum er að stofnunin verði ekki lengur á höfuðborgarsvæðinu.

Áformin hafa sætt harðri gagnrýni seinustu daga. Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, telur að flutningurinn muni kosta á bilinu 100 til 200 milljónir króna og að hann muni draga úr rekstrarkostnaði stofnunarinnar. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðins byggist það mat á vinnuskjali sem gert hefur verið í atvinnuvegaráðuneytinu vegna flutningsins.

Aðspurður hvort ekki hefði verið nærtækara að gera ítarlegri greiningu á flutningnum áður en ákvörðun um hann var tekinn segir Sigurður Ingi: „Því er til að svara að stjórnsýslan er oft gagnrýnd fyrir að gera endalausar skýrslur sem aldrei er gert neitt með. Það eru til ótal skýrslur um alvarleika þess að landsbyggðin sé útundan í opinberum störfum og að ný verði til á höfuðborgarsvæðinu.“ Hann bætir svo við: „Það er stefna núverandi ríkisstjórnar að stuðla að byggð úti á landsbyggðinni.“

Lára V. Júlíusdóttir hrl. segir að hver og einn starfsmaður Fiskistofu sem ekki þiggi starf hjá stofnuninni eftir flutninginn muni annað hvort fá biðlaun eða starfslokasamning. Þeir sem hafi starfað fyrir hið opinbera fyrir 1. júlí 1996 eigi rétt á biðlaunum í tólf mánuði. „Það er fullvíst að af þessum flutningum fellur til töluverður kostnaður vegna þessa,“ segir Lára. Líklegt er að slíkur kostnaður verði stærsti einstaki kostnaðarliðurinn við flutning stofnunarinnar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út 3. júlí 2014. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.