Toppfiskur, fiskvinnslufyrirtæki á Fiskislóð í Reykjavík hefur verið úrskurðað gjaldþrota en hjá félaginu störfuðu að meðaltali 64 manns á árinum 2016 og 2017 að því er Morgunblaðið greinir frá.

Árið 2017 nam tap af rekstri félagsins rúmlega 280 milljónum króna, en bókfært verð eigna í efnahagsreikningi ársins nam 1,2 milljörðum í árslok. Bókfært eigið fé var hins vegar neikvætt um 320,5 milljónir og var því einfjárhlutfallið neikvætt um ríflega fjórðung.

Samkvæmt hluthafaskrá á þeim tíma voru fjórir hluthafar, Jón Steinn Elíasson framkvæmdastjóri en hann átti 85% hlutafjár. Síðan áttu Laufey Eyjólfsdóttir, Lovísa Guðbjörg Ásgeirsdóttir og Anna Marta Ásgeirsdóttir 5% hver.