„Ég veit ekki hvað margir karlmenn eru hér með mottur. En þeir skipta tugum. Við höfum alltaf tekið Mottumars alvarlega,“ segir Haraldur Guðni Eiðsson, upplýsingafulltrúi Arion banka. Bankinn hefur stutt við bakið á Krabbameinsfélagi Íslands í áraraðir og er hann einn af stærstu styrktaraðilum átaksins Karlmenn og krabbamein eða Mottumars sem stendur til mánaðamóta. Starfsmenn bankans héldu af því tilefni Mottumarsdaginn gleðilegan í dag með kökum og kaffi í höfuðstöðvum bankans.

Fram kemur í tilkynningu frá bankanum í tilefni af Mottumars að Ragnheiður Haraldsdóttir, forstjóri Krabbameinsfélagsins, hafi tekið á móti blómvendi og sagt nokkur vel valin orð. Tveir velhærðir starfsmenn bankans settu andlit sín í hendur rakara sem sýndi listir sínar við motturakstur auk þess sem Þorsteinn Guðmundsson sló á létta strengi og kitlaði hláturtaugar starfsmanna bankans.

Bankinn bauð jafnframt þeim karlmönnum sem vildu upp á myndatöku hjá ljósmyndaklúbbi sem starfsmenn hafa stofnað og gátu þeir fengið myndir teknar af sér með mottuna í tilefni dagsins.

Bankastjórinn Höskuldur H. Ólafsson hefur ekki safnað yfirvaraskeggi líkt og aðrir karlar í bankanum. Hann nýtti engu að síður tækifærið og hét fyrir hönd bankans á „mottuliðið“ í ár en bankinn hefur hvatt fyrirtæki til að heita á sína starfsmenn og styðja þannig við Mottumars.