Tugir flugmanna hafa hafa sótt um stöður hjá WOW air í dag og í gær. Þá hafa margir sett sig í samband við flugfélagið til að spyrjast fyrir um störf flugmanna.  Þetta segir Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW air í samtali við Rúv .

Segir Svanhvít að flugmenn á Íslandi hafi í raun verið „uppseldir og því hafi félagið þurft að ráða erlenda flugmenn til að manna vélar sínar. Þessir flugmenn eru með ráðningarsamning við erlendar áhafnaleigur og eru því í raun ekki verktakar. Segir hún að þeir flugmenn sem kjósi að koma til starfa hjá WOW air fái þjálfun á vélar félagsins sér að kostnaðarlausu og án vistarbands sem meini þeim að starfa fyrir önnur flugfélög. Bendir Svanhvít jafnframt á það að á þessu ári hafi WOW bætt við sig fimm flugvélum og að floti félagsins telji nú 17 vélar. Stendur til að í lok árs 2018 verði vélarnar orðnar 24.

Í frétt Rúv er jafnframt rætt við Örnólf Jónsson, formann Félags íslenskra atvinnuflugmanna. Segir hann að flugmenn eigi oft erfitt með að ganga í önnur störf eftir að hafa verið sagt upp starfi sínu, til dæmis hjá Icelandair.

Erfiðleikarnir skapist af því að tregða er til að ráða fólk sem þykir líklegt til að vera aðeins tímabundið í starfi, þ.e. aðeins þangað til flugmannsstaða losnar að nýju. Segir Örnólfur að ekki sé hægt að líkja uppsögnum flugmanna á grundvelli árstíðasveiflu við ráðningar annars sumarstarfsfólks í flugi. Annað sumar starfsfólk sé í flestum tilfellum einungis í leit að tímabundnu starfi yfir sumarið meðan flugmenn hafi fjárfest mikið í námi sínu og vilji starfa við það árið um kring.