Hugbúnaðarfyrirtækið Meniga hefur stækkað gríðarlega á síðustu tveim árum og er velta þess yfir milljarð króna. Meniga er ekki einungis persónulegur fjármálaráðgjafi heldur hefur fyrirtækið kynnt til sögunnar Kjördæmin sem er framtíðin í auglýsingamennsku.

Meniga var stofnað árið 2009 af Georg Lúðvíkssyni, Ásgeiri Erni Ásgeirssyni og Viggó Ásgeirssyni. Frá upphafi hefur tilgangur fyrirtækisins verið að hjálpa fólki með heimilisfjármálin en hugbúnaðurinn var fyrst um sinn viðbót við heimabanka. Meniga hefur kynnt til sögunnar nýtt app sem er í þróun hér á landi. Með tilkomu appsins er Meniga rafrænn fjármálaráðgjafi í símanum þínum, hann hjálpar þér að skilja fjármálin á styttri tíma en áður og taka upplýstari ákvarðanir. Fjármálaráðgjafinn Meniga sendir þér áminningar í símann um leið og þú ert að nálgast ákveðnar upphæðir og með tilkomu sérsniðinna tilboða í Meniga sem nefnast Kjördæmi leitar hann tækifæra fyrir þig þar sem þú getur nýtt peningana þína betur.

Umbuna trygga viðskiptavini með afslætti

Viðskiptablaðið ræddi við forstjóra Meniga, Georg Lúðvíksson, og Kristján Frey Kristjánsson, framkvæmdastjóra viðskipta á Íslandi, til að fara yfir nýjustu viðbótina hjá fyrirtækinu. „Kjördæmi virkar þannig að þeir sem skrá sig í Meniga fá sérsniðin tilboð frá stöðum sem þeir eru vanir að versla við eða sambærilegum verslunum út frá neyslusögu þeirra,“ segir Kristján.

„Tökum dæmi um þúsund manna hóp sem er skráður í Meniga sem kaupir mikið af golfvörum. Söludeild Meniga semur við fyrirtæki sem selja slíkan varning að veita hópnum afslátt í sinni verslun. Fyrirtækin geta t.d. samið um að umbuna þeim sem eru tryggir viðskiptavinir með föstum afslætti, eða reynt að ná sérstaklega til þeirra sem versla sjaldan eða aldrei hjá þeim, en kaupa engu að síður mikið af golfvarningi. Það sem gerist næst er að þessi þúsund manna hópur sér afsláttinn birtast í Meniga. Það eina sem einstaklingar í hópnum þurfa að gera er að virkja afsláttinn í Meniga með einum smelli og þá hleðst afslátturinn sjálfkrafa á öll debet og kreditkort sem eru tengd hjá þeim einstaklingi við Meniga frá öllum bönkum,“ segir hann.

Kristján segir að næst fari notandinn og versli hjá viðkomandi verslun þar sem hann greiði fullt verð við kassann. „Það er óþarfi fyrir viðkomandi einstakling að sýna að hann sé með afslátt og því óþarfi fyrir fyrirtækin að þjálfa upp starfsfólk sem þekkir öll fríðindamál fyrirtækisins. Allir sem nýttu sér Kjördæmatilboðið geta séð hversu mikið þeir hafa unnið sér inn í endurgreiðslu í Meniga og fá þá endurgreiðslu lagða inn í peningum á sinn bankareikning mánaðarlega.“

Nánar er fjallað um málið í Frumkvöðlum, tímariti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .