Andrés Magnússon framkvæmdastjóri verslunar og þjónustu segir erlenda lambahryggi geta komið í verslanir strax í næstu viku að því er Morgunblaðið greinir frá.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um sagði Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri félags atvinnurekenda tillögu ráðgjafanefndar um inn- og útflutning landbúnaðarvara um að flytja mætti inn lambahryggi og sneiðar á lægri tollum koma of seint.

Síðan tillagan kom fram hefur þó Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins óskað eftir því við nefndina að hún endurmeti þörfina vegna nýrra upplýsinga um meiri birgðir í landinu.

Samkvæmt tillögunni átti tollurinn að lækka úr 30% verðtoll auk 382 magntoll niður í einungis 172 króna magntoll frá þriðjudeginum síðastliðnum til og með 30. ágúst næstkomandi. Vill Ólafur að Samkeppniseftirlitið rannsaki hvort um samstilltar aðgerðir afurðastöðvanna hafi verið að ræða til þess að skapa innlendan skort með undirverðlagningu í útflutningi.

Treystu tillögum nefndarinnar því hafa aldrei verið afturkallaðar

Jafnframt segir Ólafur það hafa legið fyrir vikum saman að það stefndi í skort á lambahryggjum en tillagan væri ófullnægjandi, því þegar loks hafi tekist að flytja kjöt til landsins væri sláturtíðin í þann veginn að hefjast.
Samkvæmt orðum Andrésar nú virðist það þó ekki vera vandamál því núþegar séu tugir tonna af lambahryggjum á leiðinni til landsins.

„Þær vörur eru á leiðinni vegna þess að það hefur aldrei gerst í sögu ráðgjafanefndarinnar að ákvörðun hennar hafi verið afturkölluð,“ sagði Andrés sem sagði ákvörðun ráðherrans koma samtökunum í opna skjöldu því aðildarfélögin hafi ekki haft neina ástæðu til að ætla annað en hægt væri að fara af stað í samræmi við tillögurnar.

„Nefndin fékk þær upplýsingar að það væri skortur á lambahryggjum hjá að minnsta kosti tveimur birgjum. Lögin segja að það þurfi að vera skortur hjá minnst tveimur birgjum til að opnir tollkvótar verði heimilaðir.“

Breytt staða því fengu tvö tonn frá annarri afurðastöð

Annar þessara aðila er Kjötafurðastöð Kaupfélags Skagfirðinga, en Ágúst Andrésson forstöðumaður hennar segir jafnframt í Morgunblaðinu breytta stöðu hjá kaupfélaginu vera vegna tveggja tonna af lambahryggjum sem afurðastöðinni hafi borist frá Fjallalambi síðan hún tilkynnti að hryggirnir væru búnir.

Forstjóri SS, Steinþór Skúlason, segir ásakanir Andrésar um að fyrirtækið hafi hafnað viðskiptum við tvö stærstu matvörufyrirtæki landisns og segir það alvarlega ásökun að afurðastöðvar hafi sameiginlega ákveðið útflutning til að skapa skort á markaðnum.

„Ef hugmynd Andrésar er sú að SS hafi látið aðrar afurðastöðvar flytja út hryggi á lágu verði, sem þær lenda svo í skorti með, til að SS geti hækkað verð á sínum birgðum þá sér hver barnaskólakrakki hvaða vit er í þeim málflutningi,“ segir Steinþór.

Skýrir verðmun með öðruvísi skurði á hryggjum

Jafnframt segir hann það rangfærslur hjá framkvæmdastjóra SVÞ þegar hann sagði 15 til 20% af lambahryggjum sem framleiddir hefðu verið hér á landi hefðu verið fluttir út á 900 krónur á kílóið meðan smásöluverslunum hér á landi byðist þeir á 1.600 til 1.800 krónur.

Segir Steinþór hryggina sem fluttir séu út vera svokallaða Spánarhryggi sem séu úr minni skrokkum en venjulega séu seldir á Ísland. „Þyngd þessa stykkis er rúmlega tvöföld þyngd á hrygg og því fráleitt að bera saman verðið á spánarhryggjum og venjulegum íslenskum hryggjum,“ segir Steinþór sem segir að ef viðkomandi aðilar hefðu samið við SS að hausti um tiltekið magn lambakjöts hefði það verið tekið frá fyrir þá.

„Ef hins vegar þessir aðilar hafa valið að skipta við aðra en SS með hryggi og vilja svo að vori eða sumri kaupa magn sem aðrir geta ekki afgreitt, þá liggur SS að sjálfsögðu ekki með aukalager upp á von og óvon af hryggjum eða öðrum pörtum lambakjöts.“