Nær minnihlutavernd hlutafélagalaganna til atvika þegar allar eignir dótturfélags eru settar til tryggingar á skuldum móðurfélags og hvað þarf að koma fram í sérfræðiskýrslu slíks gjörnings til að það sé metið gilt? Um þetta er meðal annars deilt í máli minnihlutaeiganda í Stofnfiski hf. gegn félaginu sjálfu.

Stofnfiskur hf., sem samkvæmt fyrirtækjaskrá heitir nú Benchmark Genetics Iceland hf., framleiðir hrogn og seiði sem síðan eru nýtt í laxeldi. Fram til ársins 2014 var Stofnfiskur í meirihlutaeigu HB Granda hf. en það ár keypti Benchmark Holding rúmlega 89% bréfa í félaginu. Það er nú hluti af Benchmark-samstæðunni en hún er sem stendur næststærsta félagið í heiminum í þessum geira. Félagið L1076 ehf. – stjórnarmenn þess eru skráðir Norðmennirnir Ole Fredrik Ingier og Roger Oddebug og félagið skráð í eigu erlends félags að nafni EW Group – á 10,47% hlut í BGI. Það félag hafði um svipað leyti, það er árið 2014, reynt að kaupa meirihluta í Stofnfiski en árangurslaust.

Haustið 2019 endurfjármagnaði móðurfélagið lán á sínum enda en óumdeilt er í málinu að móðurfélagið hefur í gegnum tíðina lánað fjármuni til Stofnfisks. Við það tímamark var ákveðið að Stofnfiskur myndi takast á hendur ábyrgð á þessum skuldum auk þess sem hluti eigna félagsins, metnar á 2,7 milljarða króna, var settur að veði. Lánsfjárhæðin til móðurfélagsins var aftur á móti 1,3 milljarðar norskra króna plús 15,5 milljónir dollara, samanlagt ríflega 21 milljarður króna.

Leiðrétting Lögmaðurinn Birgir Már Björnsson var rangfeðraður í prentútgáfu blaðsins. Nafn hans hefur verið leiðrétt hér. Hlutaðeigandi er beðinn afsökunar á mistökunum.

Hluthafafundur félagsins þurfti að samþykkja að félagið gengist undir þær skyldur og var boðað til slíks. Enn fremur var unnin sérfræðiskýrsla af endurskoðanda félagsins um gjörninginn, líkt og ákvæði hlutafélagalaga kveða á um, en þar skal meðal annars staðfesta að samræmi sé milli greiðslu félagsins og endurgjaldsins sem fæst á móti. Handvömm varð hins vegar við boðun hluthafafundarins og minnihlutaeigandinn ekki boðaður á hann. Boðað var til nýs fundar í janúar 2020 til að „endurstaðfesta“ ákvörðun fyrri hluthafafundar, sem fram fór í október 2019, en í millitíðinni hafði verið höfðað mál til ógildingar á ákvörðun fyrri hluthafafundarins. Seinna meir var höfðuð framhaldssök af hálfu L1076 til ógildingar á ákvörðun síðari fundarins.

Eignir veðsettar upp í topp

Lögmaðurinn Birgir Már Björnsson flutti málið fyrir hönd L1076 en í málflutningsræðu hans kom fram að hann teldi að mistökin við boðun fyrri hluthafafundarins ættu að leiða til ógildingar á ákvörðuninni. Síðari fundurinn gæti svo að sjálfsögðu ekki staðfest það sem ekkert er. „Það er ekki hægt að lappa upp á það sem ekkert er, það er menn geta ekki sett götóttan lögfræðiplástur á lögfræðisár sem þetta,“ sagði Birgir.

„Hvað er svona óeðlilegt við þessa veðsetningu? Jú, með ákvörðun hluthafafundarins er komin upp sú staða að Stofnfiskur, sem L1076 á einn tíunda í, hefur veðsett eignir sínar upp í topp til tryggingar á skuldum meðhluthafans. Þetta hefur þau augljósu áhrif að fjárstjónsáhætta hefur verið færð yfir á Stofnfisk. Ef 89% hluthafinn lendir í vanskilum þá ganga lánveitendur ekki aðeins að hlutnum heldur jafnframt öllum undirliggjandi eignum. Slík veðsetning, langt umfram verðmæti, hefur augljós neikvæð áhrif á alla möguleika á sölu eignarhlutar í félaginu,“ sagði Birgir Már.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér