Forsvarsmenn Milestone gerðu gjaldeyrisskiptasamninga við dótturfélög sín fyrir rúmlega 25 milljarða króna sem miðuðust við gengi íslensku krónunnar á árinu 2008.

Samningarnir, sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum, eru sex talsins og eru á milli Milestone og dótturfélaganna, Sjóvá- Almennar Tryggingar, SJ2 ehf, FjárfestingaMáttur ehf., Lyf og Heilsa hf., L&H eignarhaldsfélag ehf., og Faxar ehf. Í öllum sex samningunum tekur Milestone stöðu með krónunni en dótturfélög Milestone gegn krónunni. Með viðskiptunum var því stofnað til  verulegra skulda Milestone við dótturfélögin sex þar sem gengi krónunnar lækkaði mikið á árinu 2008.

Gengishagnaður í dótturfélög

Á þessum tíma átti Milestone verulegar eignir í Svíþjóð. Fall krónunnar gerði það að verkum að gengishagnaður myndaðist í bókhaldi Milestone en miðað við umrædda gjaldmiðlaskiptasamninga rann í það minnsta hluti af þessum hagnaði inn í efnahagsreikninga dótturfélaganna. Tveir af samningunum sex eru gerðir til þriggja mánaða, frá byrjun janúar 2008 til loka mars á sama ári. Það eru samningarnir við Lyf og Heilsu hf og L&H eignarhaldsfélag. Hinir samningarnir eru allir gerðir frá upphafi til loka  árs 2008. Það vekur þó athygli að enginn þessara samninga er dagsettur við undirritun fyrir utan samningurinn við Fjárfestingafélagið Mátt, þar sem dagsetningin 15. janúar 2008 er handskrifuð á samninginn. Það er tveimur vikum eftir að fyrri hluti gjaldmiðlaskiptasamningsins á að miðast við. Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins standa yfir riftunarmál vegna tveggja  þessara samninga, við Lyf og Heilsu hf., annars vegar og Fjárfestingafélagið Mátt hins vegar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.