Íslensk fjármálafyrirtæki greiddu á síðasta ári starfsmönnum sínum árangurstengdar greiðslur í formi kaupauka, kauprétta eða arðs í mun meiri mæli en sést hefur frá hruni. Mörg fjármálafyrirtækjanna hafa á síðustu tveimur árum breytt starfskjarastefnum sínum þannig að hægt er að greiða starfsmönnum greiðslur ofan á hefðbundin laun. Til marks um auknar bónusgreiðslur fjármálafyrirtækja þá unnu starfsmenn MP banka sér inn ríflega hundrað milljónir króna í formi kaupauka á síðasta ári. Ellefu lykilstarfsmenn bankans fengu einnig kauprétti að hlutabréfum.

Hjá Stefni, dótturfélagi Arion banka, fá starfsmenn um 50 milljónir króna í kaupauka vegna reksturs síðasta árs. Arion hefur sjálfur ekki virkjað kaupaukakerfið þótt starfskjarastefna leyfi slíkt. Íslandsbanki er sá eini af stóru bönkunum þremur sem notast við kerfið en það nær eingöngu til framkvæmdastjórnar. Viðskiptablaðið fjallaði í febrúar sl. um kaupaukareglur FME og gagnrýni sem reglurnar hafa hlotið af hálfu fjármálafyrirtækja. Sum þeirra hafa gripið til annarra leiða til þess að umbuna starfsmönnum og meðal annars gert starfsmenn að Bhluthöfum. Slíkt kerfi er við lýði hjá Arctica Finance og H.F. Verðbréfum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.