Við Vatnsdalsá stendur veiðihúsið Flóðvangur og er nýbúið að leggja 80 milljónir króna í endurbætur á húsinu. "Menn vilja hafa það notalegt og að umhverfið sé þægilegt," segir Pétur K. Pétursson, en hann er leigutaki Vatnsdalsár ásamt frönskum athafnamanni. Rætt er við Pétur í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu í dag, um uppbyggingarstarfið við Vatnsdalsá, umdeildar seiðasleppingar, ástina á íslenska laxinum og eitt best geymda leyndarmálið í íslenskum stangveiðiheimi.

Í dag þykir það sjálfsagt mál að nýtísku veiðihús fylgi bestu ánum - og jafnvel þeim minni líka - og sú þjónusta sem veitt er veiðimönnum jafnast á við það sem í boði er á hótelum með fullri þjónustu. Það er af sem áður var en Ásgeir Ásgeirsson forseti sem veiddi oft við Vatnsdalsá lét sér nægja að gista í kofa við ána með fjórum kojum, vöskum og kolaofni og eldunargræjan var "kosangasapparat" og einn af veiðimönnunum sá um eldamennskuna!