Fyrrverandi fjármálastjóri Hvals hf er grunaður um að hafa dregið sér tugi milljóna króna á undanförnum árum samkvæmt fréttum RÚV. Þetta staðfesti Kristján Loftsson, forstjóri Hvals í samtali við RÚV. Upp komst um brotið í mars við endurskoðun á ársreikningi 2010. Misræmis gætti þá í bókhaldi fyrirtækisins sem vakti grunsemdir endurskoðenda. Fjármálastjórinn gaf sig fram við lögreglu og gaf þar skýrslu. Samkvæmt heimildum fréttastofu RÚV játaði hann fjárdráttinn. Honum var í kjölfarið sagt upp störfum og rannsókn hófst á bókhaldi fyrirtækisins. Hún hefur staðið yfir síðan. Grunur leikur á að brotin nái allt að fimm ár aftur í tímann og nemi tugum milljóna króna. Mun endurskoðandi fyrirtækisins vera að fara í saumanna á hverri einustu peningafærslu fyrirtækisins síðustu fimm ár eða frá því maðurinn hóf störf fyrir Hval. Maðurinn hefur ekki verið kærður til lögreglu en samkvæmt heimildum fréttastofu bíða stjórnendur fyrirtækisins eftir að rannsókn á bókhaldinu ljúki. Kæra verði lögð fram að henni lokinni sem verður samkvæmt heimildum RÚV fljótlega. Kristján Loftsson, forstjóri Hvals staðfesti við fréttastofu RÚV að maðurinn væri grunaður um fjárdrátt. Hann vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið að svo stöddu.