Skrifað hefur verið undir samning um kaup á búnaði til að auka lausfrystingu í fiskiðjuveri HB Granda á Akranesi.

Búnaðurinn kemur frá Skaganum hf. og þegar hann verður kominn í notkun aukast afköstin í lausfrystingunni úr 800 kg/klst í 2500 kg/klst.

,,Afkastaaukningin þýðir að yfirvinna við lausfrystingu minnkar verulega, gæði afurða batna, og mögulegt verður að framleiða mikið magn ef þörf er,“ segir Torfi Þorsteinsson, forstöðumaður landvinnslu HB Granda á heimasíðu HB Granda hf.

Afkastaaukningin nýtist ekki síst ef mikið framboð er á innlendum fiskmörkuðum eða ef afli skipa félagsins er mikill.

Að sögn Torfa verður sumarleyfistíminn nýttur til að setja upp nýja lausfrystibúnaðinn. Hann segir að um leið verði tækifærið nýtt til að einfalda vinnsluferlið en hinn nýi búnaður er sniðinn að vinnslu á léttsöltuðum, lausfrystum flökum.

Vinnsla á að hefjast að nýju eftir sumarleyfi eða þann 18. ágúst nk.

Þess má og geta að sprautusöltun á ufsa- og þorskflökum hófst í fiskiðjuveri HB Granda á Akranesi í gær með nýrri sprautusöltunarvél frá Fomaco og að sögn Torfa lofar hún góðu.

Kostnaður vegna þessa búnaðar nemur hátt í 20 milljónum króna. Samningur HB Granda og Skagans hf. er hins vegar að verðmæti 49 milljóna króna. Hluti af greiðslunni er fiskvinnslubúnaður á Vopnafirði og Akranesi sem ekki nýtist félaginu lengur.

Að sögn Torfa er nú sömuleiðis unnið að lagfæringum á fiskiðjuverinu á Akranesi. Verið er að skipta um glugga og mála húsið að utan.