Jarðböðin í Mývatnssveit voru á síðasta ári rekin með tæplega 72 milljóna króna hagnaði. Jarðböðin eru í eigu Baðfélags Mývatnssveitar en það félag var rekið með 89 milljóna króna hagnaði á sama tíma en þetta kemur fram í ársreikningum félaganna.

Baðfélagið er í 38,6% eigu Tækifæris hf. en stærstu eigendur félagsins eru KEA, Akureyrarbær og Lífeyrissjóðurinn Stapi. Þá fara Íslenskar heilsulindir ehf., dótturfélag Bláa lónsins, með 22,3% hlut og Landsvirkjun með 16% hlut.

Samtals námu rekstrartekjur Baðfélagsins 239 milljónum á árinu 2012 en þar nam sala í jarðböðin 181 milljón króna. Veitingasala nam 55 milljónum. Baðfélag Mývatnssveitar greiddi hluthöfum sínum 19,9 milljónir í arð á síðasta ári.