Níu stjórnendur Kviku banka áttu tugmilljóna króna viðskipti með hlutabréf bankans í dag, en nokkrir þeirra voru að nýta áskriftarréttindi með um þrefalt lægra kaupgengi en núverandi hlutabréfaverð Kviku. Þetta kemur fram í tilkynningu til kauphallarinnar í dag.

Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku, seldi 2 milljónir hluta í félaginu fyrir rúmar 44,9 milljónir króna. Hann nýtti áskriftarréttindi fyrir tvöfalt stærri hlut, 4 milljónir hluta, sem hann keypti fyrir 28,1 milljón króna á genginu 7,03 en til samanburðar er gengi Kviku 22,4 í dag.

Hlutabréfagengi Kviku hefur meira en þrefaldast frá því í byrjun Covid þegar það fór neðst í 7 krónur á hlut en hefur hækkað verulega eftir að tilkynnt var um samrunann við TM.

Viðskiptin koma í kjölfarið á uppgjöri Kviku sem var birt eftir lokun markaða í gær. Hið sameinaða félag, Kviku, TM og Lykils, skilaði 2,5 milljarða króna hagnaði á fyrsta fjórðungi ársins .

Tilkynnt var um viðskipti eftirfarandi stjórnenda í dag:

  • Marínó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku
  • Ármann Þorvaldsson, aðstoðarforstjóri
  • Thomas Skov Jensen, forstöðumaður áhættustýringar
  • Ragnar Páll Dyer, framkvæmdastjóri fjármálasviðis
  • Lilja Rut Jensen, yfirlögfræðingur
  • Halldór Karl Högnason, forstöðumaður fjárstýringar
  • Baldur Stefánsson, framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar
  • Magnús Ingi Einarsson, framkvæmdastjóri bankasviðs
  • Bjarni Eyvinds Þrastarson, framkvæmdastjóri markaðsviðskipta