Bílasala nýrra bíla á fyrstu sjö mánuðum ársins hefur aukist um 43,62% miðað við fyrstu sjö mánuði ársins 2011. Á sama tíma hefur sala á notuðum bílum vaxið um rúm 14%. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

7.580 ökutæki komu á götuna á fyrstu sjö mánuðum ársins en þau voru 5.278 í fyrra. Samkvæmt lauslegum útreikningi frá bílaleigu í Reykjavík eru um 2.000 ný ökutæki á götunni í ár tilkomin vegna kaupa bílaleiga. Til samanburðar voru seld 13.227 ný ökutæki á fyrstu sjö mánuðum ársins 2008.

Samkvæmt bílasölum sem Morgunblaðið ræddi við telja þeir þessa aukningu vera uppsafnaða þörf fólks til að skipta um bíla. Undanfarin ár hafi bílasala verið lítil og nú sé svo komið að sumir geti ekki beðið lengur. Það helsta sem tefji fyrir enn frekari aukningu er óvissa varðandi útreikning á svokölluðum gengislánum.