Mikill munur getur verið á greiðslubyrði íbúðalána milli banka. Þetta er á meðal þess sem kemur í ljós þegar reiknuð eru lán í lánareiknivélum á vefsíðum Landsbankans, Íslandsbanka og Arion banka.

Viðskiptablaðið reiknaði íbúðalán hjá þessum þremur bönkum til kaupa á 30 milljóna króna, 40 milljóna króna og 60 milljóna króna íbúð með 40%, 60% og 80% lánshlutfalli. Útreikningarnir voru gerðir fyrir lán með bæði verðtryggðum og óverðtryggðum vöxtum. Þar sem hægt var að fá bæði breytilega vexti og fasta vexti til 5 ára voru útreikningarnir gerðir fyrir báðar tegundir lána. Loks voru þessir útreikningar gerðir fyrir lán með jöfnum greiðslum annars vegar og jöfnum afborgunum hins vegar. Í öllum tilfellum er gert ráð fyrir að fasteignamat íbúðarinnar sé 80% af kaupverði hennar.

Arion oftast með lægstu byrðina

Þegar útreikningarnir voru skoðaðir kom í ljós að Arion banki var oftast með lægstu greiðslubyrðina, eða í 45 tilfellum. Landsbankinn var með lægstu greiðslubyrðina í 9 tilfellum, en Íslandsbanki var aldrei með lægstu greiðslubyrðina. Í öllum tilfellum er miðað við greiðslubyrði fyrsta gjalddaga.

Íslandsbanki var hins vegar oftast með hæstu greiðslubyrðina, eða í 36 tilfellum. Í 18 tilfellum var Landsbankinn með hæstu greiðslubyrðina. Arion banki var aldrei með hæstu greiðslubyrðina.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .