*

mánudagur, 13. júlí 2020
Erlent 28. apríl 2020 18:14

Tugþúsunda uppsagnir framundan

5 þúsund gætu misst vinnuna varanlega hjá SAS og 12 þúsund hjá British Airways. Búast ekki við eftirspurn fyrr en á næsta ári.

Ritstjórn

Stór flugfélög víða um heim stefna nú á uppsagnir og niðurskurð kostnaðar vegna áhrifa útbreiðslu kórónuveirufaraldursins sem veldur Covid 19 sjúkdómnum. Þar á meðal verður starfsemi SAS mjög takmörkuð í sumar sem gæti leitt til uppsagna á 5 þúsund störfum varanlega en hjá British Airways gætu þær numið 12 þúsund.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá fyrr í dag verður yfir 2.000 starfsmönnum Icelandair sagt upp, en þar af er tæplega helmingur flugfreyjur og flugþjónar hjá félaginu, eða um 95% þeirra sem starfað hafa í þessum stöðum.

Þannig sagði British Airways fyrr í mánuðinum að félagið myndi segja upp meira en 30 þúsund flugáhöfnum og starfsmönnum á jörðu niðri, meðan Lufthansa hugðist draga úr starfshlutfalli um tveggja þriðju hluta starfsmanna sinna í kjölfar þess að félagið kyrrsetti flestallar flugvélar sínar.

SAS hafði einnig tilkynnt um það fyrir mánuði að það myndi segja upp 10 þúsund starfsmönnum, eða 90% af vinnuafli sínu tímabundið, en nú virðist sem stór hluti uppsagnanna verði varanlegar.

Rickard Gustafsson forstjóri SAS skýrir ástæðuna með því að eftirspurn verði líklga mun lægri út árið og inn í árið 2021, og ekki verði komið á sambærileg eftirspurn eftir ferðalögum fyrr en árið 2022.

„Það er sviðsmyndin sem við erum að vinna með, og það er besta matið sem við getum komið með,“ sagði Gustafsson í samtali við Reuters. „Það mun taka tíma þangað til heimurinn opnast á ný og fólk telji öruggt að ferðast á ný.“

Norwegian hefur varað við því að félagið geti klárað lausafé sitt um miðjan maí en eins og Viðskiptablaðið greindi frá á sínum tíma misstu 4.700 starfsmenn dótturfélaga þess í Svíþjóð og Danmörku vinnuna eftir gjaldþrot þeirra.

Stikkorð: SAS Uppsagnir flugfélög British Arways