Ferðaskrifstofuveldið TUI, sem rekur sitt eigið flugfélag, hefur samið við Boeing vegna pantana þeirra á MAX vélum. Samningurinn felur í sér að Boeing mun bæta TUI stærstan hluta þess fjárhagslega skaða sem kyrrsetning vélanna hefur valið, trúnaður ríkir um nákvæma upphæð. Að auki mun afhending nýrra flugvéla seinka um að jafnaði tvö ár. Frá þessu er sagt á vef Túrista .

TUI hafði pantað sjötíu og sex MAX þotur frá Boeing. Fimmtán af þeim höfðu verið afhentar í mars í fyrra Þegar allar flugvélar af þeirri gerð voru kyrrsettar. Ekki er vitað nánar um hvað samningurinn felur í sér þar sem trúnaður ríkir um samkomulag TUI og Boeing.

Slíkt hið sama gildir um þá tvo samninga sem Icelandair hefur gert við Boeing vegna MAX málsins, þar sem ekki liggur fyrir hversu háar skaðabæturnar voru, eða hvort samkomulagið feli í sér breytingu á afhendingu þeirra tíu þota sem Icelandair á eftir að fá.

Á hluthafafundi Icelandair í lok maí kom fram að viðræður við Boeing verksmiðjurnar séu í gangi.