Foster+Partners, arkitektafélagið sem hannaði hina frægu byggingu sem oft er líkt við gúrku, kölluð Gherkin á ensku, hyggjast byggja annan hærri turn í City of London, fjármálahverfi Lundúnaborgar. Á turninn að kallast á við Gúrkuna, sem er 180 metra há, en hann verður 350 metra hár með stóru túlípanalöguðu útsýnissvæði sem skaga mun út úr súlunni sjálfri.

Þar með bætist turninn við fleiri hús sem fengið hafa viðurnefni vegna útlits síns, eins og Ostaskerinn og Talstöðin að því er BBC segir frá. Turninn mun þó einungis verða fyrir heimsóknir áhugasamra, en ekki til að innihalda neitt skrifstofurými. Þannig verða utanáliggjandi útsýnislyftur á byggingunni og rennibrautir innanhúss.

Er ætlunin að gefa 20 þúsund fríar heimsóknir fyrir skólakrakka á hverju ári en ætlunin er að keppa við Lundúnaaugað, hringekjuna frægu og fleiri staði sem verið hafa aðdráttarafl ferðamanna í London. Ef heimild fæst fyrir verkefninu mun bygging þess geta hafist árið 2020 og klárast 2025, en félagið Bury Street Properties fjármagnar það.