„Við erum himinlifandi yfir viðtökunum sem við höfum fengið,“ segir Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri íslenska hönnunarfyrirtækisins Tulipop. Fyrirtækið var það eina héðan sem þátt tók í gjafavörusýningunni Ambiente í Frankfurt í Þýskalandi. Þetta er ein stærsta sýning heims á sviði gjafavara, húsbúnaðar og borðbúnaðar og er sótt af um 145 þúsund verslanaeigendum og dreifingaraðilum hverju sinni. Sýningin hófst á föstudag í síðustu viku og lauk í gær.

Í tilkynningu frá Tulipop kemur fram að sýningarbás fyrirtækisins hafi verið staðsettur í höll 11 á svokölluðu "Young & Trendy"-svæði, sem er mjög eftirsótt. Meðal annarra fyrirtækja sem sýndu í höll 11 voru Ferm Living, Normann Copenhagen, Tivoli Audio og Pylones.

Hönnunarfyrirtækið Tulipop var stofnað árið 2010 af þeim Signýju Kolbeinsdóttur og Helgu Árnadóttur. Signý er höfundur ævintýraheims Tulipop og krúttlegu fígúranna sem þar búa, Bubble, Maddý, Skully og félaga. Tulipop hefur þróað úrval að litríkum og skemmtilegum gjafavörum sem hafa vakið mikla lukku meðal barna og fullorðinna, en fyrstu vörur fyrirtækisins komu á markað í mars 2010. Vörur Tulipop eru nú seldar í Bandaríkjunum, Þýskalandi, Írlandi og Svíþjóð auk Íslands.

Á sýningunni í Franfurt sýndi fyrirtækið fjölmargar nýjar vörur, þar á meðal myndskreytt matarstell, diskamottur og lampa, til viðbótar við minnisbækur, pennaveski og tækifæriskort.

Haft er eftir Helgu í tilkynningunni að á sýningunni hafi fjöldi pantana borist frá fjölda verslana í Þýskalandi, Ítalíu, Hollandi og Frakklandi.