Íslenska hönnunarfyrirtækið Tulipop hefur sett í loftið skemmtilegan stafrófsleik fyrir krakka sem er í anda hins vinsæla ævintýraheims og persóna sem Tulipop hefur skapað. Hann verður fáanlegur frá og með 1. júlí í Apple App Store, Google Play og Amazon App Store. Leikurinn fylgir í kjölfar vinsælu Tulipop stafrófsplakatanna sem fyrirtækið setti á markað síðastliðið sumar og skreyta nú þegar mikinn fjölda barnaherbergja hér á landi og erlendis.

Með því að nota Tulipop leikinn geta krakkar lært nöfn allra stafanna í stafrófinu og hljóð hvers og eins. Auk þess geta þeir leikið sér á sniðugan hátt með með hvern staf sem gerir lærdómsferlið enn skemmtilegra. Leikurinn er í boði á íslensku og ensku.

Tulipop stafrófsleikurinn er fyrsti leikurinn sem Tulipop setur á markað í samstarfi við breska hugbúnaðarfyrirtækið Boluga. Samstarf fyrirtækjanna hófst í kjölfar þess að stofnendur fyrirtækjanna hittust fyrir tilviljun í byrjun ársins 2014.

Kennslufræðilegt gildi

Helga Árnadóttir, meðstofnandi og framkvæmdastjóri Tulipop, segist vongóð fyrir markaðnum. Sjálfar eru Helga og Signý Kolbeinsdóttir, hinn stofnandi Tulipop, með börn í kringum sig sem finnst alveg rosalega skemmtilegt að leika sér í forritinu. Auk þess er þetta leikur sem hefur uppeldis- og kennslufræðilegt gildi. Þær lögðu mikið upp úr því, en það kom meðal annars kennari að þróun leiksins. ,,Það er ekki bara verið að kenna nöfnin á stöfum heldur einnig hljóðin og dæmi um orð með hverjum staf. Forritið er skemmtilegt og fyndið auk þess að vera kennslufræðilegt," segir Helga. ,,Tulipop heimurinn er með skrítinn og fyndinn húmor á bakvið það er verið að reyna að láta það njóta sín í appinu. Við notuðum einnig tækifærið og fengum vin okkar Úlf Eldjárn til að búa til lag í upphafi leiksins þannig að þetta er mjög skemmtilegt," segir Helga.

Mikil umsvif hjá fyrirtækinu

,,Búið er að bæta við tæpum tuttugu búðum í Bretlandi," segir Helga Árnadóttir, meðstofnandi Tulipop. ,,Á þessu ári var kynnt til leiks vörulína sem var stækkuð um helming og bættar voru við fullt af nýjum vörum sem eru til sölu bæði hér og erlendis. Hlutafjáraukning var kláruð í lok síðasta árs sem gerði fyrirtækinu kleift að setja kraft í þetta og láta þetta allt gerast aðeins hraðar," segir Helga.

Um Tulipop

Töfrandi Tulipop ævintýraheimurinn var skapaður af tveimur góðum vinkonum, Signýju Kolbeinsdóttur, vöruhönnuði og teiknara, og Helgu Árnadóttur, tölvunarfræðingi og MBA. Markmið Signýjar og Helgu með Tulipop er að búa til skapandi og fallegar vörur fyrir börn sem höfða til fólks á öllum aldri.

Í Tulipop heiminum búa krúttlegar og heillandi persónur, eins og sveppstrákurinn hugljúfi Bubble, sem ann öllu sem hrærist, og systir hans Gloomy, hugrakka og ævintýragjarna sveppastelpan sem hræðist ekkert.

Fyrirtækið Tulipop var stofnað í byrjun árs 2010 og er Tulipop vörulínan í dag seld í fjölda fallegra verslana á Íslandi auk þess að vera til sölu í 8 löndum utan Íslands. Allar vörur er jafnframt hægt að kaupa í vefverslun Tulipop. Vörulína Tulipop hefur hlotið lof víða um heim og fengið alþjóðleg hönnunarverðlaun.

Um Boluga

Boluga er sjálfstætt starfandi hugbúnaðarfyrirtæki í Hampshire, Englandi sem hefur skapað vinsæl forrit fyrir snjallsíma, s.s  gagnvirkar bækur og leiki.

Hér má sjá stiklu fyrir nýja leikinn: