Íslenska hönnunarfyrirtækið Tulipop og King Features gera samning um samstarf í Bandaríkjunum og Kanada og er Tulipop þar með komið í hóp þekktra vörumerkja King Features, en félagið sér meðal annars um Garfield, Popeye, Betty Boop, Múmínálfana og Cuphead á Bandaríkjamarkaði.

Bandaríska fyrirtækið King Features, sem er hluti af hinni öflugu Hearst fyrirtækjasamstæðu, hefur gert samstarfssamning við íslenska hönnunarfyrirtækið Tulipop, um að vera umboðsaðili fyrirtækisins á sviði nytjaleyfasamninga í Bandaríkjunum og Kanada.

Samstarf King Features og Tulipop var formlega kynnt í dag á Licensing Expo sýningunni sem fer fram þessa vikuna í Las Vegas, en Licensing Expo er stærsta sýning í heimi á sviði nytjafleyfasamninga.

Hlutverk King Features verður að markaðssetja Tulipop á fyrirtækjamarkaði í Bandaríkjunum og Kanada og kynna hið íslenska Tulipop hugverk fyrir framleiðendum gjafavarnings, s.s. leikfanga, og fatnaðar, auk bókaútgefenda og leikjaframleiðenda, og sjá um gerð samninga og framkvæmd samstarfs við slíka aðila. Tulipop mun eftir sem áður halda fullum eignarrétt á vörumerkinu og mun Tulipop teymið vinna náið með King Features, m.a. í gegnum skrifstofu
félagsins í New York.

King Features er umboðsaðili ástsælla teiknimyndapersóna sem njóta vinsælda um allan heim, en á meðal þeirra eru Popeye, sem Íslendingar þekkja sem Stjána bláa, Garfield (eða Grettir), Betty Boop, hinir finnsku Múmínálfar og hið kanadíska Cuphead. King Features sér um alla samninga sem tengjast nýtingu á þeim hugverkum, s.s. í tengslum við vöruframleiðslu og framleiðslu afþreyingarefnis.

„Það er risastór áfangi fyrir Tulipop að ná samningi við þetta virta fyrirtæki um markaðssókn í Bandaríkjunum og Kanada. King Features er með reynslumikið og öflugt teymi og er þekkt fyrir að byggja upp vönduð og klassísk vörumerki og hlökkum við mikið til að vinna með þeim að því að halda áfram uppbyggingu Tulipop í Norður-Ameríku,“ segir Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Tulipop.

„Á aðeins 10 árum hefur Tulipop vaxið frá því að vera falleg hugmynd í að verða vinsælt vörumerki með vaxandi aðdáendahóp um allan heim,“ segir Carla Silva , framkvæmdastjóri alþjóðlegra nytjaleyfa hjá King Features.

„Það er mikill innblástur fyrir okkur að finna hversu mikla ástríðu stofnendur hafa fyrir vörumerkinu og við hlökkum til að koma úrvali af vönduðum og fallegum vörum, sem byggja á þessum töfrandi íslenska ævintýraheimi, í sem flestar verslanir í Bandaríkjunum og Kanada.“

Alþjóðleg samstæða 360 fyrirtækja

King Features, er hluti af Hearst fyrirtækjasamstæðunni, sem er leiðandi aðili á alþjóðlegum fjölmiðlamarkaði en samsteypan telur yfir 360 fyrirtæki alþjóðlega.

Hearst sérhæfir sig meðal annars í dreifingu á kvikmynduðu efni og í nytjaleyfasamningum. Auk þess eru þeir einn fremsti dreifingaraðili heims á teiknimyndasögum, tímaritum, dagblöðum, púslum, og leikjum.

King Features er eitt reynslumesta félag í heimi á sviði nytjaleyfasamninga og afþreyingar. Félagið er einnig leiðandi á
heimsvísu í sölu og dreifingu á teiknimyndasögum og tengdu efni til dagblaða og tímarita.

King Features er umboðsaðili nokkurra af þekktustu vörumerkjum í heimi, m.a. Betty Boop™, Popeye®, Cuphead, Flash Gordon™, The Phantom™, Hägar the Horrible og Prince Valiant®.

Tulipop teiknimyndir á fjórum tungumálum

Tulipop, sem er hönnunarvörumerki með höfuðstöðvar og verslun í miðbæ Reykjavík og skrifstofu í New York, var stofnað árið 2010 af Signýju Kolbeinsdóttur, vöruhönnuði og teiknara, og Helgu Árnadóttur, tölvunarfræðingi og MBA, en saman létu þær draum sinn rætast um að búa til einstakt vörumerki sem höfði til barna á öllum aldri.

Tulipop framleiðir og selur hönnunarvörur, auk þess að hafa framleitt tvær teiknimyndaseríur sem byggja á Tulipop heiminum og íbúum hans, sem hafa verið talsettar á 4 tungumálum og sýndar á bæði RÚV og YouTube rásum Tulipop.

Tulipop vinnur með alþjóðlegum framleiðendum, þar á meðal hinum virta bandaríska leikfangaframleiðenda Toynami, sem keypt hafa réttinn til að framleiða vörur byggðar á vörumerkinu í gegnum nytjaleyfasamninga. Hjá félaginu starfar teymi átta sérfræðinga.