Tulipop lauk fjármögnun vegna nýrrar teiknimyndaseríu síðastliðið haust og er stefnt að því að hefja sýningar hér á landi fyrir árslok.

Undanfarin ár hefur fyrirtækið fjárfest mikið í öllum sviðum hugverksins, að sögn Helgu Árnadóttur, framkvæmdastjóra og annars tveggja stofnenda Tulipop.

„Við höfum verið að skrásetja vörumerki víða um heim, þróað mörghundruð vörutegundir og alls konar efni og leiðarvísa vegna vörumerkisins fyrir framleiðendur, það er hvernig Tulipopvörur líta út, auk þess að þróa og fínpússa konseptið og skilgreina markhóp Tulipop og byggja upp tengsl við öfluga samstarfsaðila, svo sem á sviði teiknimyndaframleiðslu, bókaútgáfu og nytjaleyfa," segir hún og bætir við að það sé frábær tilfinning að byrja að uppskera eftir nokkuð langa fæðingu.

„Það er ótrúlega gaman að sjá þetta verða til. Gæðin á efninu sem við erum að framleiða eru framar vonum og höfum við fengið mjög jákvæð viðbrögð hvað það varðar frá sjónvarpsstöðvum. Það eru ekki síst gæðin sem láta efnið standa upp úr og gera það ólíkt mörgu öðru barnaefni, þetta er aðeins öðruvísi lúkk og fílingur en fólk er vant að sjá. Við erum líka að draga íslensk element fram í þáttunum, en í þeim eru norðurljós, eldfjöll, ísjakar og alls konar ævintýri sem byggja á íslenskri sagnahefð, og að þáttunum kemur stór hópur íslensks hæfileikafólks, en þar á meðal má nefna leikstjórann Sigvalda J. Kárason, tónskáldið Gísla Galdur Þorgeirsson, íslenska handritshöfunda á borð við Gunnar Helgason, og svo mætti lengi telja."

Helga segir vonir standa til þess að serían verði stökkpallur fyrir Tulipop. „Viðtökurnar við seríunni lofa góðu og við erum þegar byrjuð að undirbúa þá næstu. Við vonumst til þess að þetta verði stökkpallur fyrir okkur til þess að geta nýtt allt það sem við höfum byggt upp og þróað á liðnum árum, komið íslensku hugverki og þessum ævintýraheimi fyrir augu barna og fullorðinna úti um allan heim og byggt svo frekar á því, til dæmis á sviði bókaútgáfu, teiknimynda, varnings og svo framvegis."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .