Túnfiskur sem veiddur er í norðanverðu Atlantshafi kemur að stærstum hluta frá hrygningarslóðum annað hvort í Miðjarðarhafinu eða í Mexíkóflóa. Nokkur hluti kemur þó frá þriðja staðnum, sem ekki er vitað hvar er en þó eru einhverjar vísbendingar um að hann geti verið nálægt Madeira-eyjum vestur af Marokkó.

Norska hafrannsóknastofnunin, Havforskningsinstituttet, greinir frá nýrri rannsókn á uppruna túnfisksins, þar sem byggt er á greiningu á erfðaefni fiska sem veiðst hafa.

Þar segir frá því að unnt sé að rekja uppruna fisksins til hrygningarslóðanna, og í ljós kemur að sá túnfiskur sem veiddur er austan megin Atlantshafs kemur ekki eingöngu úr Miðjarðarhafinu, eins og talið var líklegt, heldur kemur nokkur hluti hans, mikill minnihluti að vísu, úr Mexíkóflóa.

Sögu er síðan að segja af þeim fiski sem veiðist vestan megin hafsins, við Bandaríkin, að hann kemur bæði úr Mexíkóflóa og úr Miðjarðarhafinu, og hlutur Miðjarðarhafsfisksins er þar býsna stór, hátt í helmingur og jafnvel meira en helmingur sums staðar.

„Erfðaefnisgreiningin sýnir að túnfiskurinn lætur engin svæðismörk stöðva sig. Hann syndir þvert yfir Atlantshafið í áður óþekktum mæli. Sérstaklega í Mexíkóflóa er verulegur hluti aflans í raun túnfiskur frá Miðjarðarhafinu,“ segir Leif Nøttestad, prófessor í fiskifræði við háskólann í Bergen.