Tyrkneska símafyrirtækið Turkcell hefur gert kauptilboð í 65% hlut í Bulgarian Telecommunications Company (BTC), segir í tilkynningu til kauphallarinnar í Istanbúl. Upphæð kauptilboðsins var ekki gefin upp.

Viðskiptablaðið greindi frá því í frétt í morgun að fresturinn til að gera tilboð í kauprétt Novators, fjárfestingarfélags Björgólfs Thors Björgólfssonar, að 65% hlut í BTC muni renna út í dag.

Formleg ákvörðun um söluna hefur þó ekki verið tekin enLehman-bankinn var fenginn til að skoða möguleika á sölu í kjölfar áhuga fjárfesta á fyrirtækinu.

Einnig er reiknað er með tilboðum frá fjárfestingasjóðunum Mid-Europa Partners, Texas Pacific og Warburg Pincus og tyrkneska símafyrirtækinu Turk Telekom.

Bandaríski fjárfestingasjóðurinn Advent á eignarhaldsfélagið Viva Ventures, sem heldur utan um hlutinn í BTC og samkvæmt reglum einkavæðingarnefndar Búlgaríu verður Advent að eiga hlutinn þar til í janúar á næsta ári. Björgólfur Thor tryggði sér kaupréttinn að hlutnum á síðasta ári.

Landsbankinn í Lúxemborg er skráður fyrir 13,38% hlut í félaginu og segja heimildarmenn Viðskiptablaðsins að bankinn hýsi hlutinn fyrir þriðja aðila.

Markaðsvirði BTC er um 150 milljarðar íslenskra króna og hefur það hækkað verulega síðan fyrirtækið var einkavætt árið 2004, en þá var verðmæti félagins um 20 milljarðar króna.