Turkish Airlines og Boeing hafa náð samkomulagi um greiðslu bóta vegna kyrrsetningar Boeing 737 Max vélanna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá flugvélaframleiðandanum.

Sagt er frá á vef Reuters . Í tilkynningunni kemur ekki fram hve há bótagreiðslans er en samkvæmt tyrkneskum fjölmiðlum mun hún nema 225 milljónum dollara, andvirði tæplega 27,3 milljarða íslenskra króna.

737 Max vélarnar hafa verið niðurnegldar við jörðina frá því í mars á þessu ári eftir tvö mannskæð flugslys, annað í Indónesíu en hitt í Eþíópíu. Alls fórust 346 í slysunum og hafa eftirmálar þeirra kostað Boeing um 9 milljarða dollara hingað til.

Turkish Airlines hafði fengið tólf slíkar vélar afhentar og átti, á þessum tímapunkti, að hafa fengið annað eins til viðbótar. Alls pantaði félagið 75 vélar af tegundinni 737 Max. Félagið hafði farið fram á bætur frá Boeing vegna þess tjóns sem kyrrsetningin hefur valdið og íhugaði að stefna bandaríska félaginu fyrir dóm til að sækja bótagreiðslur.

Fleiri félög, þar á meðal Icelandair, eiga í viðræðum við Boeing vegna málsins.