Malcolm Turnbull, forsætisráðherra Ástralíu, sagðist í morgun myndu segja af sér forsætisráðherrastólnum ef meirihluti þingflokks hans, Frjálslynda flokksins (Liberal party), óskaði eftir formannskjöri.

Peter Dutton, flokksbróðir Turnbull og innanríkisráðherra, gerði atlögu að honum á þriðjudag, en hafði ekki erindi sem erfiði. Margir telja Turnbull hinsvegar hafa sloppið ansi naumlega, og efast um getu hans til að viðhalda einingu innan flokksins, sem gengur illa í skoðanakönnunum þessa dagana.

Turnbull, fyrrverandi bankamaður hjá Goldman Sachs og tæknifjárfestir, er álitinn frjálslyndur í félagsmálum innan stærsta íhaldsflokks landsins, og hefur misst stuðning vaxandi hóps kjósenda sem hefur hallast í átt hægri-popúlisma.

Dutton, sem er fyrrverandi lögregluþjónn, hefur hinsvegar mjög róttækar skoðanir á innflytjendum og hælisleitendum, og sakaði nýlega Afríska innflytjendur um að fremja glæpi. Hann hefur verið að ganga á þingflokkinn og reyna að snúa honum gegn Turnbull, en Turnbull segist enn bíða eftir bréfi með undirskriftum að minnsta kosti 43 þingmanna flokksins, þess efnis að þeir vilji formannskosningu.

Turnbull sagðist hyggjast halda fund á föstudag ef slíkt skjal bærist, en ef fundurinn tæki ákvörðun um að halda formannskjör, myndi hann ekki gefa kost á sér áfram.