Donald Tusk, forsætisráðherra Póllands, hefur verið útnefndur forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins og mun taka við embættinu af Herman Van Rompuy.

Þá hefur Federica Mogherini, utanríkisráðherra Ítalíu, verið skipuð í embætti utanríkismálastjóra sambandsins og mun taka við af Catherine Ashton.

Tusk er skipaður í embætti til tveggja og hálfs árs, en hann mun taka við þann 1. desember. Mogherini mun hins vegar taka við þann 1. nóvember og er skipuð til fimm ára.

Leiðtogar Evrópusambandsins hittust í Brussel í gær, til að velja í stöðurnar. Nú er búið að skipa í þrjú valdamestu embætti sambandsins, en fyrir skömmu var Jean-Claude Juncker útnefndur forseti framkvæmdastjórnarinnar. Þessi þrjú munu starfa náið saman á næstu árum.

Helle Thorning-Schmidt, forsætisráðherra Danmerkur, kom einnig til greina í embætti forseta leiðtogaráðsins. Í frétt B ørsen um málið er haft eftir Helle Thorning-Schmidt að Tusk sé duglegur og reynslumikill stjórnmálamaður, sem muni reynast Evrópusambandinu góður leiðtogi. Hún segist jafnframt hlakka til samvinnu við nýja forsetann og óskar honum til hamingju.