Síðustu fimm ár hafa verið mikið umbreytingatímabil hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Annata þar sem fjárfest hefur verið gríðarlega í þróun á eigin skýjalausnum sem hafa síðan lagt grunninn að mikilli uppbyggingu félagsins erlendis og tekjuaukningu.

Samanlagður rekstrarhagnaður (EBITDA) síðustu tveggja ára nemur um 2,5 milljörðum, samanborið við 178 milljónir árin þrjú þar á undan, og tekjur vaxa nú mjög hratt og námu yfir 5 milljörðum á síðasta ári. Í síðustu viku var tilkynnt um að framtakssjóðurinn VEX og meðfjárfestar muni kaupa allt að helmingshlut í félaginu .

Hugbúnaðarsala vaxið hratt
„Þetta voru erfið ár,“ segir Jóhann Ólafur Jónsson forstjóri Annata um umbreytingarárin. „Við notuðum mikið afl og við erum stolt af því að allt það fé sem við fjárfestum í þróun kom úr rekstri félagsins. Þegar þetta átti svo loks að fara að skila sér skall heimsfaraldurinn á.“

Annata fór ekki varhluta af efnahagsáhrifum heimsfaraldursins þegar hann kom upp árið 2020. „Það voru nánast öll alþjóðleg verkefni okkar sett á ís frá 1. apríl og fram á haust það árið þannig að við lentum í miklum tekjusamdrætti á þjónustuhliðinni.“

Því var mætt með þeim aðgerðum sem í boði voru í þeim löndum sem Annata starfar, en auk þess hjálpaði til veruleg aukning þjónustutekna í Bandaríkjunum þrátt fyrir faraldurinn. Sá markaður kom því mjög vel út.

„Við náðum að halda sölu hugbúnaðarlausnar okkar í fullum gangi með aukningu í áskriftarsölu upp á 50% árið 2020, og enn meira á síðasta ári þegar aukningin var 62%. Við sjáum fyrir okkur sambærilegan vöxt á þessu ári.“

Þjónustutekjur drógust hins vegar mikið saman árið 2020, og var tekjuvöxturinn því hóflegur heilt yfir. Þrátt fyrir það snérist afkoman hressilega við, úr 164 milljóna tapi 2019 í 728 milljóna hagnað 2020, eða 936 milljóna hagnað sé aðeins horft til reglubundinnar starfsemi.

Stóraukin geta til að hagnast
Jóhann sér fram á að áskriftartekjur muni áfram vaxa hraðar en tekjur af ráðgjöf og þjónustu. Þar spilar einnig inn í hversu fátítt það er að viðskiptavinir hætti í viðskiptum. „Það fellur nánast enginn viðskiptavinur frá í þessari hugbúnaðaráskrift, þannig að tekjustofninn hleðst bara upp.“

Hingað til hafa þær síðarnefndu staðið undir um tveimur þriðju hluta heildartekna, en hann gerir ráð fyrir að eftir um þrjú ár verði skiptingin orðin jöfn. „Möguleiki okkar til að skapa hagnað er stóraukinn, eins og sést í tölum síðasta árs. Við sjáum fram á áframhaldandi hraðan vöxt rekstrarhagnaðar, sem er að stórum hluta vegna breyttrar tekjusamsetningar, þar sem stærri hluti teknanna kemur úr áskriftarsölu eigin hugbúnaðar,“ segir Jóhann, en framlegð slíkrar sölu er mun hærri en af ráðgjöf og þjónustu, enda lítill viðbótarkostnaður við hverja selda einingu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .