Samkvæmt samtökum evrópskra viðskiptaráða, Eurochambres, er efnahagsþróun Evrópusambandsins tuttugu árum á eftir þróuninni í Bandaríkjunum. Í nýrri skýrslu samtakanna kemur fram að þjóðarframleiðsla á mann í Evrópu sé í dag sambærileg við það sem hún var vestanhafs fyrir tuttugu árum. Atvinnustig í Evrópu og fjárfesting í rannsóknum og þróun sé sambærileg við stöðu mála í Bandaríkjunum við lok áttunda áratugar nýliðinnar aldar og Bandaríkjamenn hafi náð núverandi framleiðslustigi aðildarríkja ESB árið 1989.

Fram kemur í niðurstöðum skýrslunnar að þrátt fyrir þróttmikinn hagvöxt í flestum aðildarríkjum sambandsins í fyrra, ásamt því að ýmislegum efnahagslegum umbótum var hrint í framkvæmd, sé hagkerfi sambandsins aftarlega á merinni í samanburði við það bandaríska. Miðað við sambærilega skýrslu sem Eurochambres gaf út fyrir tveim árum leiðir þessi í ljós að ESB á enn lengra í land en áður til þess að ná efnahagslegum styrk Bandaríkjanna. Munurinn er sérstaklega áberandi þegar kemur að fjárfestingu í rannsóknum og þróun, en fyrir tveim árum töldu samtökin að aðildarríki ESB væru tuttugu og þremur árum á eftir. Í nýju skýrslunni kemur fram að munurinn hafi aukist um fimm ár. Þrátt fyrir að munurinn kunni að skýrast af austurstækkun sambandsins kemur einnig í ljós að yfirburðir hafa jafnfram aukist á veigamiklum sviðum.

Skýrsluhöfundar telja að grettistaks sé þörf eigi ESB að ná stöðu Bandaríkjanna á næstu árum. Fjárfesting í rannsóknum og þróun þurfi að aukast um fjórtán prósent á ári fram til loka þessa áratugar til þess að ná stöðu Bandaríkjamanna í dag og hagvöxtur þurfi að vera meiri en átta prósent til þess að jafna metin. Skýrslan varar við því að þróunin í ESB sé ekki nægjanlega hröð til þess að tryggja samkeppnistöðuna í alþjóðahagkerfinu