Að minnsta kosti tuttugu flugfélög í heiminum eru á barmi gjaldþrots, að sögn Alþjóðasambands flugfélaga (IATA).

Háu eldsneytisverði og minnkandi eftirspurn er um að kenna.

Dow Jones-fréttaveitan hefur eftir Giovanni Bisignani, framkvæmdastjóra Alþjóðasambands flugfélaga, að flugrekstur sé mjög erfiður um þessar mundir. Farþegum þeirra 230 flugfélaga sem eru í sambandinu hafi fækkað um 1,3% í ágústmánuði í kjölfar þess að þeim fækkaði um 1,9% í mánuðinum þar á undan.

Á sama tíma á sér stað samdráttur í flugfrakt en hann nam 2,7% í ágúst og hefur aukist þrjá mánuði í röð.

Samfara samdrætti hækkar rekstrarkostnaður. Verð á flugvélaeldsneyti er nú 30% hærra en það var í fyrra þrátt fyrir að heimsmarkaðsverð á hráolíu hafi gefið þó nokkuð eftir síðan það náðu hæstu hæðum í sumar.

Samkvæmt spám IATA mun heildartap af flugrekstri nema 5,2 milljörðum Bandaríkjadala í ár og 4,1 milljarði dala það næsta.

Að sögn Bisignanis er enginn heimshluti ónæmur fyrir hinum dökku horfum sem hann segir fara versnandi. Hann segir að lækka þurfi skatta á flugrekstur og draga úr flugvallarkostnaði.