Tekjutap ríkissjóðs í framtíðinni vegna minni skatttekna en ella við úttekt á séreignarlífeyrissparnaði gæti orðið allt að 20 milljarðar. Þetta kemur fram í greinargerð með frumvarpi sem dreift var á Alþingi í gær um aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna skuldavanda heimila. Þá er ótalið tap ríkissjóðs vegna aukinnar þátttöku í séreignarlífeyrissparnaði sem talið er að gæti verið á bilinu 1-2,6 milljarðar á ári.

Heildarumfang aðgerðanna er 150 milljarðar króna. Þar af 80 milljarðar úr ríkissjóði vegna beinna niðurfellinga og hins vegar geti íbúðaeigendur greitt samtals 70 milljarða inn á höfuðstól lánanna með séreignarsparnaðinum.

Í umsögn skrifstofu opinberra fjármála með frumvarpinu segir að ef 70 milljarðar verði greiddir inn á húsnæðisskuldir heimilanna með séreignarsparnaði á tímabilinu 1. júlí 2014 til 30. júní 2017 megi áætla að tekjutap ríkissjóðs verði 20 milljarðar miðað við 30% skatthlutfall en það mundi falla til og dreifast á næstu áratugi.

„Varðandi tekjutap í þessu samhengi er mjög mikilvægt að hafa í huga að þetta eru tekjur sem hefðu komið til ríkis eða sveitarfélaga í mjög langri framtíð. Og við erum þeirrar skoðunar að aðgerðin ein og sér muni hafa mjög jákvæð efnahagsleg áhrif. Við sjáum til dæmis mat Seðlabankans og annarra aðila um að einkaneyslan muni taka eitthvað við sér. Hún hefur verið mjög lág. Það mun eitt og sér skila viðbótartekjum til ríkisins. Og uppsöfnuð áhrif af aðgerðinni yfir þetta langa tímabil munu líka hafa jákvæð áhrif fyrir ríkissjóð þannig að það ber mjög að varast að reyna að núvirða kostnað og segja að þetta sé raunkostnaður ríkisins í dag,“ sagði Bjarni Benediktsson á blaðamannafundi þegar aðgerðirnar voru kynntar í síðustu viku.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð .