Tuttugu og sjö starfsmenn fjármálafyrirtækja útskrifuðust í gær úr námi til vottunar fjármálaráðgjafa. Þetta er í fyrsta sinn sem að starfsmenn í einstaklingsráðgjöf á fjármálamarkaði fá slíka vottun en námið hefur staðið yfir í allan vetur. Að því er kemur fram í tilkynningu spannar námið helstu þætti fjármálamarkaðar og þjóðhagfræði auk lögfræði, siðfræði og þjálfunar í ráðgjafafærni.

Samtök fjármálafyrirtækja standa að verkefninu um vottun fjármálaráðgjafa ásamt efnahags- og viðskiptaráðuneytinu, Samtökum starfsfólks fjármálafyrirtækja, Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík og Háskólanum á Bifröst. Markmið vottunarinnar er að samræma þær kröfur sem eru gerðar til fjármálaráðgjafa.

Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, ávarpaði útskriftargesti og sagði meðal annars að vottunin myndi bæði skila sér í auknu trausti almennings á fjármálafyrirtækjum og á þeirri ráðgjöf sem þau veita. Steinþór sagði ennfremur að vottunin væri mikilvægur áfangi í framþróun íslensks fjármálamarkaðar og að krafan yrði hér eftir sú að þeir sem sinna einstaklingsráðgjöf í fjármálafyrirtækjum fái færni sína vottaða. Það ferli muni tryggja að þeir búi yfir nauðsynlegri þekkingu og færni í starfi og að þeir geti mætt sívaxandi kröfum viðskiptavina