10% aukning varð í fjölda umsókna í grunnnám Háskólans á Bifröst, en umsóknarfrestur rann út á dögunum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá skólanum.

„Nemendum sem sækja um háskólanám á Bifröst hefur fjölgað á hverju ári undanfarin tvö ár. Fjölgunin núna er mest í viðskiptalögfræði en sú nýbreytni verður tekin upp á komandi skólaári að boðið verður upp á viðskiptalögfræði í fjarnámi og einnig sem sérstök námsbraut með vinnu. Einnig hefja tvær nýjar námsbrautir á félagsvísindasviði göngu sína í haust, þ.e. BA í byltingafræði og BA í miðlun og almannatengslum sem fengu góðar viðtökur,“ segir í tilkynningunni.

Samkvæmt upplýsingum frá Háskólanum í Bifröst sóttu 207 manns um í grunnnáminu og 125 í meistaranámi. Örlítil fækkun varð í fjölda umsókna í meistaranám eftir metaðsókn í fyrra. 20 manns sóttu um í nýja námið í byltingarfræði. Kynjaskipting umsækjenda liggur ekki fyrir, en miðað við fyrstu tölur er útlit fyrir að konur séu í meirihluta umsækjenda rétt eins og fyrri ár.