Tuttugu starfsmönnum Byko í Garðabæ hefur verið sagt upp störfum og Sigurður E. Ragnarsson, sem hefur verið forstjóri Byko, hefur látið af störfum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Byko, sem vitnað er til á mbl.is. Guðmundur H. Jónsson tekur við af honum. Versluninni í Kauptúni í Garðabæ verður lokað 30. september nk. Sigurður hverfur til annarra starfa á vegum Norvikursamstæðunnar.

Í tilkynningunni, sem mbl.is vitnar til, segir: „Þetta eru afar sársaukafullar aðgerðir og hefur fjölskyldan sem staðið hefur að baki rekstri BYKO síðan verslunin var sett á laggirnar árið 1962 ákveðið að taka á nýjan leik alfarið við stjórnartaumunum. Þannig öxlum við sjálf þungann af bæði þessum aðgerðum og þeim breytingum sem nauðsynlegar kunna að verða á næstu mánuðum og misserum," er haft eftir Jóni Helga Guðmundssyni, stjórnarformanni og forstjóra Norvíkur sem á og rekur Byko, í tilkynningu.

Fram kemur í tilkynningunni að sé Byko nauðugur sá kostur að rifa seglin og laga sig að breyttum aðstæðum.

„Aðstæður í íslensku efnahagsumhverfi hafa í langan tíma verið slæmar með tilheyrandi samdrætti í verslun með byggingarvörur. Þá hafa samkeppnisaðstæður á þeim markaði gjörbreyst með eignarhaldi og afskriftum banka á skuldum og síðar yfirtöku lífeyrissjóða á einu þeirra fyrirtækja sem starfrækt er á þessu sviði."