Fjárhagsstaða sveitarfélaga á Íslandi er mjög mismunandi en þó er rekstur flestra þeirra, eða 72%, í lagi og ætti að standa undir núverandi skuldbindingum. Kemur þetta fram í skýrslu Íslandsbanka um sveitarfélögin.

Þetta þýðir þó að 28% sveitarfélaga standa ekki undir skuldbindingum sínum miðað við núverandi skulda- og tekjustöðu. Flokkar Íslandsbanki sveitarfélögin í fjóra flokka: Sveitarfélög með litlar skuldir og þar sem rekstur stendur undir skuldum, sveitarfélög með miklar skuldir, en rekstur stendur samt undir skuldsetningunni, sveitarfélög með litlar skuldir sem þau standa samt ekki undir og svo mjög skuldsett sveitarfélög sem ekki standa undir skuldsetningunni. Taka ber fram að miðað er við fjárhagsupplýsingar fyrir árið 2011, enda nýrri upplýsingum ekki fyrir að fara.

Í síðastnefnda flokknum eru sveitarfélögin Reykjanesbær, Sandgerðisbær, Vogar, Grundarfjörður, Stykkishólmur, Bolungarvík, Ísafjörður, Vesturbyggð, Blönduós, Norðurþing, Breiðdalshreppur og Seyðisfjörður. Í þessum hópi er einnig að finna Álftanes, en það sveitarfélag mun renna saman við Garðabæ, sem er lítið skuldsettur og ræður vel við skuldir.

Við þennan hóp bætast svo þau sveitarfélög sem eru lítið skuldsett en ráða þó ekki við skuldirnar. Þau eru Eyja- og Miklaholtshreppur, Helgafellssveit, Bæjarhreppur, Húnavatnshreppur, Húnaþing vestra, Skagafjörður, Skútustaðahreppur og Mýrdalshreppur.

Sveitarfélögin í þessari stöðu eru tuttugu talsins, sé Álftanes ekki tekið með, og í þeim búa samtals tæplega 35.900 manns.