Heildarlaun ríkisstarfsmanna eru að meðaltali 5% hærri en laun á almennum vinnumarkaði. Helmingur allra ríkisstarfsmanna er með hærri mánaðarlaun en hinn almenni íslensku launamaður. Þá eru 13% ríkisstarfsmanna með yfir milljón í laun á mánuði, en laun tekjuhæstu starfsmanna ríkisins hafa hækkað töluvert undanfarin ár. Þetta kemur fram í nýlegri launarannsókn Hagstofu Íslands. Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins hefur áhyggjur af stöðunni.

„Það er athyglisvert að heildarlaun ríkisstarfsmanna séu hærri að meðaltali á almennum vinnumarkaði. Stærsta skýringin á því liggur að mestu í ólíkri samsetningu starfsmanna, þar sem helmingur ríkisstarfsmanna eru háskólamenntaðir, en hlutfall háskólamenntaðra er lægra á almennum vinnumarkaði. En þegar einstakar starfsstéttir ríkisstarfsmanna og á almennum markaði eru bornar saman kemur í ljós að munurinn milli þeirra er minni en látið hefur verið í veðri vaka. Þá vekur athygli að launahæsti fjórðungur ríkisstarfsmanna hækkaði hlutfallslega meira en launalægri ríkisstarfsmenn milli áranna 2014 og 2016,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson í samtali við Viðskiptablaðið, en hann rekur hækkun hæstu launa ríkisstarfsmanna til vanhugsaðra úrskurða Kjararáðs.

„Þegar litið er til þróunarinnar milli áranna 2014 og 2016 kemur í ljós að hæsti launafjórðungur ríkisstarfsmanna hækkaði meira en þeir sem lægri laun höfðu, sem er öfugt við það sem gerðist á almennum vinnumarkaði. Sérstaklega var það áberandi í hópi efsta launafjórðungs stjórnenda hjá ríkinu sem hækkaði um 23% en um 13% á almennum vinnumarkaði. Þetta er birtingarmynd þess að á þessum tíma voru í gangi tvær andstæðar launastefnur í landinu, þ.e. að hækka lægstu laun sérstaklega á almennum vinnumarkaði og að hækka hæstu laun sérstaklega hjá ríkinu,“ segir Halldór Benjamín.

„Þetta er mjög óeðlilegt. Þessar hækkanir eru ekki gott veganesti inn í komandi kjaraviðræður þar sem í stað þess að leggja svigrúmið til launahækkana í atvinnulífinu til grundvallar í kjaraviðræðum er ástæða til að óttast að hópur A bendi á hóp B og krefjist þess sem hann hafi eða fékk á einhverjum tímapunkti. Áframhald slíkrar þróunar getur teflt okkar góðri efnahagsstöðu í tvísýnu.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .