Menntaskólinn Hraðbraut mun taka til starfa á ný næsta haust eftir um tveggja ára hlé. Skólinn hætti störfum árið 2012 eftir að þjónustusamningur stjórnvalda við skólann var ekki endurnýjaður. Fram kemur í tilkynningu að við menntaskólann geti nemendur tekið stúdentspróf á tveimur árum. Tekið er fram að skólinn verði rekinn án fjárstuðnings ríkisins enda hafi ráðherra hafnað því að gera þjónustusamning við skólann vegna fjárhags ríkissjóðs. Hins vegar sé ekki hægt að bíða með að hefja skólastarfið þar til fjárhagur ríkisins batni.

Þetta þýðir að skólagjöld við Menntaskólann Hraðbraut verða að standa undir rekstri skólans. Skólagjöld hækka því mikið og verða 890 þúsund krónur á hverju skólaári (tvær annir). Tekið er fram í tilkynningu frá menntaskólanum að þetta sé mun lægri kostnaður á hvern „ársnema“ en í nokkrum öðrum framhaldsskóla á Íslandi. Fjárhagslegur ávinningur nemenda af því að ljúka háskólanámi fyrr en kostur er á öðrum skólum sé mikill, miklu meiri en nemur skólagjöldunum. Hægt er að fá lán fyrir skólagjöldum sem ekki þarf að greiða fyrr en að loknu námi í háskóla.

Fengu tugi milljóna í arð af rekstri skólans

Rekstrarerfiðleikar skólans höfðu verið í kastljósinu í um tvö ár eða frá því mennamálanefnd Alþingis vildi hætta að veita skólanum fjármagn. Skoðun sína byggðin nefndin á mati Ríkisendurskoðunar á rekstri skólans. Þar kom m.a. fram að Hraðbraut hafi fengið 192 milljónir króna frá ríkinu umfram það sem honum bar á árabilinu 2003 til 2009. Eigendur skólans fengu jafnframt í arð af rekstri hans 82 milljóna króna. Því til viðbótar fengu aðilar honum tengdum 50 milljóna króna lán.